Lög Efnafræðifélags Íslands

Síðast uppfærð á aðalfundi félagsins, 28. mars, 2023

1. grein
Félagið heitir Efnafræðifélag Íslands.  Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík

2. grein
Hlutverk félagsins er að:

  1. Efla efnafræðiþekkingu á Íslandi og vera fagvettvangur fyrir efnafræðinga og
    annað áhugafólk um efnafræði.
  2. Efla efnafræðikennslu í íslenskum skólum og stuðla að framförum á því sviði.
  3. Efla innlend og erlend samskipti efnafræðinga og koma fram fyrir hönd félagsmanna gagnvart skyldum erlendum félagasamtökum.
  4. Beita sér fyrir fræðslu um efnafræði með fyrirlestrum og í rituðu máli.
  5. Kynna og efla efnafræðirannsóknir á Íslandi

3. grein
Félagsmenn geta orðið:

  1. Þeir sem lokið hafa háskólaprófi í efnafræði, efnaverkfræði, lífefnafræði eða skyldum greinum.
  2. Raungreinakennarar í grunn- og framhaldsskólum sem lokið hafa háskólaprófi.
  3. Háskólanemar í efnafræði, efnaverkfræði eða lífefnafræði geta sótt um aukaaðild að félaginu.  Aukaaðild fylgir ekki atkvæðisréttur á félagsfundi.

Þeir sem óska eftir að gerast félagsmenn skulu tilkynna það skriflega til stjórnar.

4. grein
Fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar sem styðja vilja markmið félagsins geta gerst styrktaraðilar.

5. grein
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.  Aðalfund skal halda á tímabilinu frá 1. febrúar til 31. mars ár hvert.  Skal hann boðaður með a.m.k. viku fyrirvara.  Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða í öllum málefnum nema þeim er snerta breytingar á lögum félagsins.  Til lagabreytinga þarf 2/3 atkvæða þeirra félagsmanna sem á fundi eru og greiða atkvæði.

6. grein
Dagskrá aðalfundar er sem hér segir.

  1. Tilnefning fundarstjóra og fundaritara.
  2. Lögð fram skýrsla stjórnar.
  3. Lagðir fram ársreikningar.
  4. Umræður og afgreiðsla liða 2 og 3.
  5. Tillögur um lagabreytingar ef fram koma.
  6. Ákvörðun árgjalds.
  7. Kosning stjórnar skv. 9. grein.
  8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga til eins árs.
  9. Önnur mál.

7. grein
Reikningsár félagsins er almanaksárið.

8. grein
Tillögum um lagabreytingar skal skila skriflega til stjórnar eigi síðar en 15. janúar og skal þess þá getið sérstaklega í fundarboði að lagabreytingartillögur verði teknar til meðferðar á aðalfundinum og efni þeirra lýst.

9. grein
Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum, formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda.  Stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára þannig að árlega eru kosnir tveir til stjórnarsetu.  Formaður er kosinn sérstaklega til tveggja ára.  Stjórnin skiptir með sér verkum.  Auk þess skal kjósa einn stjórnarmann til vara til eins árs.

10. grein
Æski 10 félagsmenn þess skriflega, skal kalla saman félagsfund eða aukaaðalfund.  Stjórn getur boðað til félagsfundar eða aukaaðalfundar,  þyki nauðsyn bera til.  Aukaaðalfund og félagsfund skal boða á sama hátt og aðalfund og skal gerð grein fyrir dagskrá í fundarboði.

11. grein
Verði félaginu slitið renna eignir þess til efnafræðiskorar raunvísindadeildar Háskóla Íslands.

12. grein
Heimilt er að stofna deildir innan félagsins með samþykki stjórnar.  Allar deildir skulu starfa samkvæmt 2. grein laga Efnafræðifélags Íslands.  Allir félagsmenn í Efnafræðifélagi Íslands hafa rétt til þátttöku í deildum félagsins. Stjórnin skal skipa undirbúningsstjórn sem heldur stofnfund deildarinnar. Stofnun nýrrar deildar skal lögð fyrir næsta aðalfund til staðfestingar.  Deildum er heimilt að samþykkja eigin samþykkir sem bornar eru undir næsta aðalfund til staðfestingar. Deildir mega ekki koma fram opinberlega í nafni Efnafræðifélagi Íslands nema með samþykki stjórnar.

Stjórnin getur lagt til á aðalfundi félagsins að leggja deild niður tímabundið eða endanlega og skal þess þá getið sérstaklega í fundarboði aðalfundar.  Eignir viðkomandi deildar verða þá í vörslu Efnafræðifélags Íslands.

Að öðru leyti en því sem fram kemur í lögum þessum skulu deildir vera taldar sjálfstætt starfandi og hafa sjálfstæðan fjárhag, en skulu skila skýrslu um starfsemi ársins ásamt reikningum til stjórnar fyrir aðalfund.

Samþykkt á aðalfundi 2. mars 2006