Sprengjugengið

Sprengjugengið er hópur efna- og lífefnafræðinema við Háskóla Íslands sem vakið hefur athygli fyrir skemmtilegar sýningar þar sem ýmsum efnabrellum er beitt til að skemmta áhorfendum. Á sýningunum er megináherslan lögð á að kynna efnafræði fyrir almenningi með því að sýna ýmis efnahvörf og litabreytingar en sýningarnar enda gjarnan á kraftmiklum sprengjum.

Sprengjurnar gætu talist eitt helsta aðdráttarafl sýninganna enda er gengið jafnan kennt við þær. Sögu Sprengjugengisins má rekja til ársins 2007. Við skólann starfaði þá efnafræðikennari, Sigurður V. Smárason, þáverandi formaður Efnafræðifélags Íslands, sem hafði bæði áhuga og reynslu af efnabrellusýningum. Hann safnaði efnilegum nemendum saman og kenndi þeim skemmtileg sýningar- atriði eftir að kennslu lauk á daginn. Fyrsta stóra sýning Sprengjugengisins var svo haldin á Menningarnótt sama ár.

Það er ekki hættulaust að vera meðlimur í Sprengjugenginu. Hluti undirbúningsvinnunnar felst í að útbúa sprengiefnin sem eru notuð á sýningunum en efnafræðingar Sprengjugengisins framleiða þau að mestu leyti sjálfir. Því þykir nauðsynlegt að nýliðar hafi lokið fyrsta ári í efna- eða lífefnafræði, séu áhugasamir og hafi góða umsögn kennara, bæði í verklegri og bóklegri efnafræði.

Markmið með starfi Sprengjugengisins að vekja áhuga á efnafræði og raunvísindum almennt. Upphaflega voru flestar sýningar Sprengjugengisins í samstarfi við Háskóla Íslands en beiðnum um sýningar frá öðrum aðilum fer sífjölgandi. Síðan 2011 hefur Sprengjugengið ferðast með Háskólalestinni og haldið stórskemmtilegar sýningar á næstum 20 viðkomustöðum um landið. Stærstu sýningarnar eru árlegar sýningar á Háskóladaginn og á Vísindavöku Rannís. Sýningarnar eru undantekningarlaust vel sóttar og má því segja að Sprengjugengið hafi öðlast frægð á Íslandi.

Grundvöllur mun vera fyrir starfsemi Sprengjugengisins meðan áhugasamir nemendur stunda nám í efnafræði við Háskóla Íslands. Ef starfsemi Sprengjugengisins leiðir til þess að almennur áhugi á efnafræði aukist meðal landsmanna þá er tilganginum náð.

Sprengjugengið heldur úti Facebook síðu en þar má finna allar fleiri upplýsingar og myndir, bæði af sýningum sem og við undirbúning sýninga: Facebook síða Sprengjugengisins

Einnig heldur Sprengjugengið úti Youtube-rás, en þar má finna video sem tekin eru á sýningum Sprengjugengisins sem og við undirbúning (bakvið tjöldin) inná verklegum stofum Háskóla Íslands: Youtube síða Sprengjugengisins